Villa. Næst ekki samband við síðu.

Kl 18:00 á morgun miðvikudag þá skelli ég hurðinni í Símabæ í síðasta sinn með mjög blendnum tilfinningum og reyndar nokkrum ósögðum sögum líka. Ég er mjög feginn að þetta tímabil sé að klárast og nýr kafli að taka við og mjög þakklátur þeim mikla fjölda sem hefur komið til mín sl. daga og þakkað mér samveruna.

Um leið er mér hugsað til símtækjamarkaðarins sem kippti í raun sölu símtækja og markaðsnafninu undan versluninni minni og annara sem fást við símtækjasölu á forsendum þess að við séum að selja raftæki en ekki beitu til að narra fólk í áskriftir.

Síðast í dag kom til mín eldri maður með eldgamlan síma og vanda sem tekur kannski 10 min að leysa en ég gat ekki lokað búðinni á meðan til viðbótar við að þetta mál hætti að heyra undir mína þjónustu fyrir mörgum árum. Farðu með þetta í símafyrirtækið þitt en þetta er eiginlega þeirra mál segi ég en fæ þau svö að símafélagið hans hafi sent hann til mín. Uff

Ég skammaðist símafélaginu hans og sagði honum að fara aftur og spyrja símafélagið sitt að því hvort það sé innifalið í þeirra þjónustu að fá starfsmann í 10 min fyrir að hafa greitt þeim mánaðarlega í áratugi, og hann mætti líka skila til þeirra að búðin mín væri ekki full af sjálfboðaliðum sem ynnur það samviskusamlega sem starfsfólk símafélaga kunni ekki sakir t.d. starfsaldurs.

Ég hef í mörg á bent á þá ríku viðskiptalegu tilhneigingu að spyrða saman gerólíkar vörur og þjónustur til að vara A verði að einskonar hækju til að selja vöru B sem er aðalmálið. Vara A sem eru farsímar þurfa ákveðar þjónustulegar umgjarðir og ein þeirra ætti að vera sérþjónusta fyrir eldra fólk sem enn kemur í Símabæ úr t.d. Elko og biður mig um að kenna sér á símann sinn.

Í raun var þetta orðið svo slæmt ástand í Ármúlabúðinni um tíma að starfsfólk gat búist við drullumokstri yfir sig ef við tókum fram að námskeið væri ekki innifalið í verði 5000 kr símtækis sem skildi þúsundkall eftir sig. Þetta gekk svo langt með svo ljótu dæmi fatlaðrar konu einn daginn að ég sprakk á því og sendi forstjóra Símans bréf sem hann gleymdi ekki í bráðina.

Ég sagði við hann á þá leið að ég væri í raun búinn að sætta mig að afskrifa farsímasöluna svo ekki væri það örsök pirringsins heldur sú staðreynd að búðin mín virtist stundum vera notuð sem úrræði til að losna við erfitt fólk úr búðum sínum og ég hefði nóg annað við minn tíma að gera en að standa í þjónustulegum skeiningum gagvart þeirra eigin þjónustuframboði. Framboði sem yrði að taka mark af því að þeir væru að þjónusta elsta og viðkvæmasta notenda farsíma eða fólk sem ólst upp við kerti og spil og horfir á snjallsíma eins og yngra fólk myndi horfa á geimskip í garðinum sínum.

Ég segi að hugsanlega eigi gölluð samkeppnislöggjöf hlut að máli. Mér er t.d. alveg sama hvort símafyrirtæki selja símtæki en þau eiga að sjálfsögðu og gera það á þeim forsendum að símtæki sé fyrst og fremst raftæki og þeirra símaverslanir verði að reka þær að sömu forsendum og ég því það er svo fjarri því ósanngjörn krafa.

Ég get þó reyndar sagt að ég fékk strax viðbrögð frá Símanum við skömmum mínum og fékk fulltrúa frá þeim í heimsókn sem var mér sammála en niðurstaðan var sú að’ gamla fólkið verður að finna sig velkomið þá sjaldan það þarf smá viðvik því það upplifir sig annars svo bjarglaust að maður var reglulega að taka slíkt inná sig.

Ég sinni reyndar enn mikilli þjónustu við eldriborgara og sérviskupúka í tengslum við t.d. rafhlöðusölu og barátta mín undanfarið hefur m.a. snúst um að finna henni farveg með hinum ýmsu leiðum og hvað úr verður kemur í ljós á næstu dögum en hitt er dagljóst að ég loka annað kvöld kl. 18:00 og sel mitt síðasta símtæki á morgun en það er eitt stykki af CAT iðnaðarmannasíma eftir á lager og þið megið endilega prútta um.

Vefur Símabæjar lokar líka á morgun en allar póstsendingar hafa verið afgreiddar af þeim mikla fjölda pantana sem barst sl. daga og allt sem verður pantað á meðan vefurinn er í loftinu verður afgreitt.

Búðinni verður svo pakkað saman annað kvöld en fésbókarsíðan heldur sér fyrst í stað hið minnsta.

Þetta er því ekki hinn eiginlegi kveðjupistill heldur bara áminning um upplifun mína af markaðnum og rammanum um hann vegna mannsins sem kom hingað í dag því símafélaginu hans fannst góð hugmynd að ég færi í sjálfboðlaliðavinnu enn eina ferðina, en hvert senda þeir kúnnana í næstu viku? Í Elko eða segja gamla fólkinu að fara heim og googla þetta? Eða koma kannski aftur þegar meðalaldur starfsfólks í þjónustuveri er orðinn nokkrum árum hærri?

Vona mér fyrirgefist pirringurinn en svona bara er þetta og mér finnst það bæði fáránlegt og ósanngjarnt að vera að missa mitt góða markaðsnafn í svelginn vegna þess að ég nýt ekki lagalegrar verndar sem aðili að samkeppnismarkaði með mikla eigin áhættu og í raun stórfellt fjárhagslegt og heilsufarslegt tap að endanum.

Eða eins og í byrjun sagði þá eru búðarsögurnar mínar margar og skrautlegar og þegar um hægist og kallinn verður orðinn brattari þá læt ég eitthvað meira flakka um samskipti mín við bransann. Það er eitt af því sem hefur markað mig í minni afstöðu til viðskiptalífsins að þegar Símabæ var í uppgangi í Mjódd en birgðalega veikur fyrir þá greinist ég með krabbamein og bið um slaka fyrir starfsmann í nokkrar vikur en það var vonlaust. Computer says no….

Ég hreinlega grátbað um hjálp með tilvísunar til viðskiptasögu en sala sl. 10 ára er um 6-700 milljónir og ég fékk aldrei meiri fyrirgreiðslu en sem nam tveggja vikna meðalveltu í Símabæ og kláraði svo yfirdráttinn loksins um áramót með þá einu eftirsjána að hafa ekki geta forðað mér fyrr.

Auðvitað er ég því fúll og ekki bara við regluverk samkeppnismála heldur rekstrarumhverfi smáfyrirtækja en ég sé það algjörlega í gegnum tugi kollega og vina í bransanum að góð fyrirtæki eru helst látin dingla á okurvöxtum í yfirdrætti frekar en að skaffa þeim langtímafjármögnun sé til þess stöðug viðskiptasaga, rétt eins og mín.

Og eftir að hafa blásið þessu út þá býð ég ykkur hjartanlega velkomin til míns síðasta vinnudags sem Gylfi í Símabæ og ég hlakka reyndar til að selja síðasta símann á morgun því ef eitthvað er víst í lífi mínu nú þá er það að ég mun aldrei aftur nenna að selja slíkt dót.

Ég á hinsvegar nokkuð mörg kíló af bæklingum sem hafa komið með mér heim eftir vörusýningar og margt af því dóti passaði ekki inn í Símabæ. Í raun veit ég það eitt í dag að ég er að fara að selja skemmtilega dótið því það á amk. að reyna að gera mig skemmtilegan aftur :)

En ég skal vera fínn á morgun :) og algjörlega til í að prútta

Símabæjarútsalan heldur áfram á netinu um helgina en ég var að setja upp 50% afslátt á allar myndavélarafhlöður en úrvalið er býsna gott. Eiginlega svo gott að ég fékk bréf fyrir nokkrum mánuðum sem hugsanlega var skrifað að undirlagi Nýherja eða frá lögfræðing Canon sem var mjög ósáttur við að ég hafi vogað mér að selja rafhlöður í myndavélar og kenna þær við sitt eigið vörumerki. Huh, hvernig á ég að annars að selja rafhlöðu í canon myndavél nema taka það fram að rafhlaðan sé fyrir canon myndavél…..og svona rugli hefur áður verið beitt á Símabæþ

Ég svaraði að hætti hússins og sendi honum þennan sama link og er hér nema hvað ég lækkaði allar rafhlöður um 20-30% fyrst og bauð honum að troða bréfinu sínu, þið vitið hvert :) Að öðrum kosti myndi ég efna til opinberrar umfjöllunar um þeirra eigin álagningu við að kaupa jafnvel af sömu verksmiðju og ég en bæta við nokkur hundruð % álagningu vegna vörumerkisins.

Þessi tiltekni lögfræðingur Canon hefur aldrei haft samband síðan og nú er 50% viðbótarafsláttur við refsiverðið sem ég klíndi á hann til að segja honum að það stjórnar enginn mínu vöruframboði eða hótar mér fyrir að hugsa fyrst og síðast um neytendur. Hef selt myndavélarafhlöður sem eru ferskar frá verksmiðju sl. 10 ár og útskipti eru færri en fingur annarar handar sem er minn mælikvarði á gæði.

Hreinsunin stendur áfram til miðvikudags og gengur mjög vel, búinn að fá mér Nikon D750 og gamla Canon vélin mín er til sölu svo ég sé samkvæmur sjálfum mér. Takk fyrir þessi ótrúlega góðu viðbrögð við útsölunni því þau skipta mig miklu máli við góða lendingu og farsælt framhald. Símbær hverfur en haldi samkeppnisaðilar að það sé tími til að skála fyrir því í kampavíni þá eru það mistök. Ég er nefnilega enn lifandi með sterkt bakland til innflutnings á hvaða vörumerki sem er

Lifi samkeppnin

Mér þykir alveg einstaklega vænt um þau almennilegheit og kærleika sem ég hef fengið frá gestum í Símabæ sl. daga í rýmingarsölunni og margir hafa minnst á hve lengi þeir hafa elt búðina. Sko, ég verslaði fyrst við þig í Ármúla, svo í Grafarvogi þar til þú fórst í Mjóddina og þaðan fórstu aftur í múlana og hvurn fj. eru að gera í Kópavogi? Mér þykir vænt um svona. Ég er reyndar ómannglöggur að eðlisfari og hef verið of stressaður og upptekin af rekstrinum sl. ár til að vera í skemmtlegasta sölugírnum eða í gleði sem nær að smita frá sér og einlægni sem segir fólki að það sé pæling á bakvið vöruúrvalið. Pæling um að finna dót sem skilar réttmætri væntingum um virði sem algjörlega heldur kvörtunum í lágmarki og einfaldar vinnudaginn minn. Ég hef fengið margar spurningar um framhaldið sl. daga eða hvort ég sé horfinn af markaðnum. Svarið er ekki opinbert enn, en ef þið kíkið í heimsókn á rýmingarsöluna þá skal ég segja ykkur frá planinu mínu :) Segi annars bara takk fyrir metaðsókn í Bæjarlindina sl. daga sem gleður mjög mitt gamla kaupmannshjarta eftir allt sem á undan er gengið. Útsalan heldur áfram og kallinn er djarfur til feitra afslátta og prútts uns ég skelli í lás og hef nýjan kafla í lífi mínu.

Eitt flottasta tilboðið á rýmingarsölu Símabæjar sem lokar 7 mars er þessi veglegi Bluetooth turn á þessu brandaraverði og burðargjald fyrir landsbyggðina er kr. 1990.- m/v afhendingu á pósthúsi - Ekkert smá flott fermingargjöf á ekkert smá flottu verði :) en turninn kostar nú aðeins kr. 7.794.- og ykkur er velkomið að prófa hann hér í búðinni.